BRUGGHÚS HEIMSÓKN

Víking brugghús hefur nú opnað handverksbrugghús í Ægisgarði. Þar verða Víking Craft selection bjórarnir bruggaðir og því langar okkur að bjóða fólki í heimsókn í nýja brugghúsið okkar. Þar verður gestum boðið uppá hinn ýmsa fróðleik sem tengist bjórunum okkar og hinum hefðbundnu Víking bjórum sem bruggaðir eru á Akureyri. Farið verður yfir bruggferlið, stiklað á stóru í gegnum sögu bjórsins á Íslandi, kennd grunnhugtök í smakkfræðum og að lokum farið í það sem er skemmtilegast við svona heimsóknir, að smakka bjór.

Við lofum einstakri upplifun fyrir bjórþyrsta íslendinga og það er aldrei að vita nema að við smökkum bjóra sem ekki eru á boðstólunum fyrir hinn almenna íslending.

Verð á mann 3.500 kr.

VIKING LEIKAR

Víking-leikar eru uppákoma fyrir alla sanna bjóráhugamenn sem þyrstir í skemmtilega upplifun og í senn aukna þekkingu á bjór, sögu hans og hefð. Farið er í gegnum helstu fræði um hvernig smakka skal bjór, farið er í sögu bjórsins frá landnámi til dagsins í dag og að lokum er att kappi í skemmtilegum leikjum sem tengjast því sem búið er að læra um kvöldið. Hér er veitt vel, smakkað lengi og leikið af þrótti í anda Ægis, konungs hafsins og bruggmeistara með meiru.

Hægt er að bóka Víking-leikana með ljúffengum mat frá Veislunni veisluþjónustu.

Verð á mann 6.990 kr. / 10.190 kr. með mat

Lágmarksfjöldi 15 manns

JÓLA LEIKAR

Í þessari hátíðarútgáfu af hinum hefðbundnu Víking-leikum, er farið í að smakka þá fjóra jólabjóra sem Víking brugghús bruggar fyrir þessa hátíð allra hátíða, í stað hinna hefðbundnu bjóra sem í prógramminu eru. Leikar fara svo fram með eilítið hátíðalegri blæ, þó keppt sé í sömu skemmtilegu keppnisgreinunum og áður.

Það gerist hreinlega ekki jólalegra og lofum við því að hver og einn einasti leikandi mun valhoppa út úr húsi, hrópandi hó hó hó!

Hægt er að bóka Jóla-leikana með ljúffengum jólamat frá Veislunni veisluþjónustu.

Verð á mann 6.990 kr. / 10.490 kr. með smáréttum / 12.490 kr. með jólahlaðborði

Lágmarksfjöldi 15 manns

VÍN LEIKAR

Sérstaklega skemmtileg kvöldstund þar sem farið er í gegnum helstu fræðin er viðkoma smakki á léttvínum. Við kennum fólki hvernig á að smakka vín og eftir hverju er verið að leita í lykt og bragði, rætt verður um paranir á víni með mat, förum í blindsmakk þar sem við reynum að geta uppá víninu, ásamt því að etja kappi í skemmtilgum leikjum sem tengjast því sem við erum búin að læra um kvöldið. Hér er sérlega skemmtilegt prógram fyrir þá sem vilja auka þekkingu sína á víni og geta jafnvel komið vinunum á óvart í næsta matarboði!

Verð á mann 6.990 kr.

Lágmarksfjöldi 15 manns

VISKÍ LEIKAR

Farið er í skemmtilega ferð um héröð og hálendi Skotlands og gert grein fyrir því hvað einkennir viskíin frá hverju héraði fyrir sig. Einstaklega fræðandi og skemmtilegir leikar þar sem við lærum að meta þennan elixír sem Skotanir hafa verið að fullkomna í gegnum aldirnar. Lærum að nota hann í blandaða drykki, hvernig er hægt að drekka hann með mat og öðrum drykkjum og svo bara hvernig þér finnst best að drekka hann; neat, blended eða on-the-rocks! Fullnægðu viskípúkanum þínum í skemmtilegum leikum þar sem fróðleikurinn sem þú nemur verður að lokum lagður fyrir þig í skemmtilegum leikjum.

Verð á mann 8.490 kr.

Lágmarksfjöldi 15 manns

KAFFI LEIKAR

Kaffi er ekki bara kaffi og það veit það enginn betur en okkar sérfróði Jón Gestur! Hann mun leiða ykkur í gegnu furðuheima hinna ýmsu kaffidrykkja. Hvernig er best að laga það, hvað gerist við brennslu og mölun og hvernig býr maður til hinn fullkomna kaffidrykk. Skemmtilegir og fræðandi leikar, þar sem allir fá að spreyta sig í kaffilögun og vitneskjan að lokum prófuð með skemmtilegum leikjum tengdum kaffi.

Verð á mann 6.490 kr.

Lágmarksfjöldi 15 manns

Ægisgarður er fjölnota rými ætlað fyrir allskyns gleðisamkomur. Við tökum á móti hópum, sama hvort er um að ræða einkasamkvæmi, fyrirtækjahópa eða bara það sem fólki dettur í hug.

Ekki hika við að hafa samband og við setjum saman kvöldskemmtun fyrir þig og þína sem mun verða í minnum höfð um ókomna tíð.

info@aegisgardur.is | 552 7872

Nánari upplýsingar hér

ÓLAFUR S.K. ÞORVALDZ
Yfir Bjórgjafi
Óvenju bitur gestgjafi með beiskju og langvarandi eftirbragði. Þó mildur í munni og fasi og einstaklega auðdrekkanlegur þrátt fyrir allt. Ljós yfirlitum og fullur af froðu.
JÓEL INGI SÆMUNDSSON
Bjórgjafi
Einstaklega vel samansettur gestgjafi. Einungis úrvalshráefni hefur verið sett í þennan dreng. Ljúfur og ljós, en tapar þó fullfljótt froðunni og fellur í flatneskju ef hann er látinn liggja of lengi. Parast einstaklega vel með ærkjöti eða úrvals skinku.
TRYGGVI RAFNSSON
Bjórgjafi
Fullur af fáránlega góðu hráefni, þessi milli dökki einstaklingur er svo sannarlega vel heppnuð blanda. Freyðir sæmilega og er með mikla fyllingu. Farið þó varlega við neyslu því froðan getur auðveldlega flætt upp úr ef hann fær of mikla athygli.
GUNNLAUGUR P. PÁLSSON
Vín- og Viskígjafi
Þessi djarfi gestgjafi hefur mikla fyllingu og mikinn bragðkeim. Þar sem hann er blanda af öllu því sem við höfum uppá að bjóða, slæðist inn leðurlykt og tóbak í flókna palletuna. Hann er ómótstæðilegur til neyslu og skilir eftir mikið og gott eftirbragð.
JÓN GESTUR SÖRTVEIT
Kaffigjafi
Kraftmikill og hæfilega brenndur, þó sérstaklega á sumrin. Þessi góða eðalblanda gefur hnausþykkt og ljúft eðalbragð. Hann er ætíð kátur og vel til hafður og blandast virkilega vel við hvaða hóp og hráefni sem er.

Árið 1939 stofnaði Aage R. Schiöth Efnagerð Siglufjarðar sem starfræk var öll stríðsárin að Aðalgötu 28 á Siglufirði. Árið 1945 flutti efnagerðin svo til höfuðstaðar Norðurlands og skipti um nafn: Efnagerð Akureyrar. Þrátt fyrir að hafa framleitt margar ólíkar vörutegundir; ediksýru, salt, krydd og fleira var efnagerðin þekktust fyrir gosdrykkjaframleiðslu.

Svo ljúflega runnu gosdrykkirnir ofan í norðanmenn að þegar eigendaskipti urðu árið 1958 ákváðu nýju eigendurnir að einbeita sér nær alfarið að framleiðslu gosdrykkjanna og auka úrval þeirrar flóru. Útlitið var bjart og 1962 var ráðist í byggingu nýrrar verksmiðju að Furuvöllum 18 á Akureyri. Og gott betur en það – fyrirtækið skipti líka um nafn; Efnagerð Akureyrar varð nú Sana.

Árið 1966 var svo ákveðið að breikka úrval drykkjanna; bæta við „fljótandi fæði“ fyrir fullorðna, ef svo má að orði komast. Ráðist var í að kaupa ný og vönduð tæki til ölgerðar og stuttu síðar leit fyrsta Thule flaskan dagsins ljós, léttöl að sjálfsögðu, því þarna var enn langt í að bjór yrði leyfður á Íslandi.

Í kringum 1970 ræddu menn í fúlustu alvöru um stórútflutning á Thule til Bandaríkjanna og jafnvel Bretlands. Ekkert varð hinsvegar úr þeim áformum en þess í stað tekin U-beygja – því 1972 hætti Sana að brugga sterkan bjór... en bara í bili.

Fyrir lok áttunda áratugarins eignast Páll G. Jónsson, betur þekktur sem Páll í Pólarís, Sana og Sanitas fyrir sunnan. Árið 1979 var Davíð Sc. Thorsteinsson með uppsteyt, sem gerði það að verkum að sala á áfengum bjór var leyfð í fríhöfninni. Á þessum tímapunkti byrjaði Sana aftur að brugga bjór, nú til sölu í fríhafnarsvæði Keflavíkur. Einnig var gert nokkuð af því að brugga „bjórlíki“ sem fór í sölu á skemmtistaði landsins.

Þann 1. mars 1989 er leyfð sala og framleiðsla á sterkum bjór á Íslandi og í framhaldi af því fer Víking brugg hf. að einbeita sér algjörlega að framleiðslu bjórs. Árið 1993 er Baldur Kárason ráðinn bruggmeistari hjá Víking og í framhaldi af því hefst saga Víking brugghús eins og við þekkjum hana í dag. Víking brugghús, undir forystu Baldurs, hefur framleitt margverðlaunaða bjóra í gegnum tíðina og státar sig af því að eiga söluhæsta bjórinn í Vínbúðunum, hinn margrómaða Víking Gylltur sem einmitt hefur 3 sinnum unnið til verðlauna sem besti lagerbjór í heimi.

Víking brugghús kynnir Ægisgarð, heimili íslenskrar brugghefðar og bjórsögu.

Ægisgarður er nefndur í höfuðið á Ægi, jötni úr norrænni goðafræði og konungi hafsins. Samkvæmt hinni fornu trú stjórna Ægir og kona hans Rán, ásamt dætrum þeirra níu, hvernig hafið liggur, hvert það leiðir og hverjir fá að sigla yfir það. Ægir er ekki eingöngu þekktur fyrir að vera óvæginn konungur hafsins heldur einnig fyrir mikla gestrisni, veisluhöld og stórfenglega brugghæfileika. Oft á tíðum þegar almennur gleðskapur ríkir í undirdjúpunum og bruggun stendur sem hæst má sjá hvíta froðu á yfirborði sjávar. Þessi froða er einmitt froðan af brugginu hans Ægis. En það voru ekki bara Æsirnir sjálfir, eða aðrar verur Ásgarðs, sem höfðu ánægju af að þreyja ölið, það gerðu líka norrænir menn. Víkingar.

Á öldum Víkinga voru gjarnan haldnir leikar. Á þeim hittist fólk og gerði sér glaðan dag, tók þátt í keppni í ákveðnum greinum og að kveldi var svo fagnað með mat og drykk. Þessa hefð höfum við stuðst við og uppfært til vorra daga og sett upp okkar eigin leika hér í Ægisgarði, á vegum stærstu bjórverksmiðju okkar Íslendinga, Víking brugghús. Markmiðið er að koma fólki farsællega inn um gleðinnar dyr með leikjum og veigum, ásamt því að við lumum inn skemmtilegum fróðleik um sögu, sérkenni og hefðir bjórsins.

Ægisgarður er staðsettur á Grandagarðinum við Eyjarslóð 5, í sama húsi og Seglagerðin Ægir. Fjórir mismunandi barir eru á staðnum og túlkar hver þeirra hina miklu gestrisni Ægis á sinn hátt. Verandi gestrisinn með eindæmum, getur hann auðveldlega tekið á móti allt að 200 leikendum í einu.

Að leikum loknum stendur til boða að sigla á Ægisfleyjum með leyfi sjálfs sjávarkonungsins, vandræðalaust út í íslenskt skemmtanalíf.

Gakk á goðs veigum.